Kleinur í Airfryer

Kleinur í Airfryer

Ég varð að prófa að steikja kleinur í Airfyer.

Áferðin verður ekki eins og ef þær væru djúpsteiktar en þær eru samt góðar og ábyggilega mun hollari.

Úr þessari uppskrift fékk ég 30 kleinur og tók um 30 mínútur að steikja allt saman.

400-450 g hveiti

50 g smjör

110 g sykur

3 tsk lyftiduft

3/4 tsk matarsódi

1 tsk kardimommudropar

1 egg

250 g hrein jógúrt

Byrjið á að vinna saman kalt smjörið og helminginn af hveitinu. Þegar smjörið og hveitið er orðið vel blandað og án klumpa má bæta við sykri, lyftidufti, matarsóda og kardimommum.

Setjið nánast allt hveitið saman við en geymið síðustu 50 grömmin og bætið við deigið eftir þörfum.

Hnoðið jógúrt og eggi saman við og bætið við hveiti þar til hægt er að hnoða án þess að deigið festist við fingurna.

Látið deigið bíða í klukkustund í kæli áður en unnið er með það.

Fletjið deigið út með kökukefli í um 0,5 cm þykkt. Skerið út tígla og skerið litla rauf í miðju hvers tíguls. Dragið annan enda tígulsins í gegnum raufina til að snúa upp á kleinuna.

Forhitið Airfryer pottinn í 190°c.

Best er að setja kleinurnar á disk og úða olíuspreyi (t.d. Pam) yfir báðar hliðarnar áður en þær eru settar í Airfryer.

Bakið í 2 mínútur og snúið þeim síðan við og bakið áfram í 2-3 mínútur eða þar til þær eru fallega brúnar.

Ég næ að steikja 5 kleinur í einu.