Panang sætkartöflu karrí

Panang sætkartöflu karrí

Við skulum byrja á veseninu. Panang curry paste hef ég einungis fundið í Fiska- asian supermarket en það er vel þess virði að gera sér ferð eftir því.

Ég skipti dósinni upp í passlega skammta og geymi í frysti þar sem við á heimilinu elskum þennan rétt.

Hvað varðar Thai basil þá er það alls ekki það sama og venjulegt basil .... bara alls ekki svo ef þú finnur það ekki þá skaltu frekar sleppa því úr uppskriftinni. Kryddið gefur örlítinn anískeim. Ég rækta mitt eigið í kryddjurtagarðinum mínum í sólstofunni svo ég hef ekki þurft að leita að því.

2 msk Panang curry paste

1 dós kókosmjólk

1 msk olía til steikingar

50 g salthnetur, gróft hakkaðar

1 stór sæt kartafla (800 g), flysjuð og skorin bita

1 bakki minimaís

1 dós vatnakastaníur (water chestnuts)

salt eftir þörfum

Thai basil hálft búnt eða eftir smekk (má sleppa), saxað

Við byrjum á því að hita olíuna á pönnu og steikja karrímaukið í 1 mínútu. Bætum síðan við smávegis af kókosmjólkinni út á pönnuna og leysum upp maukið. Restin af kókosmjólkinni er sett út á pönnuna ásamt smávegis klípu af salti og sætu kartöflunni. Leyfið þessu að sjóða við miðlungs hita í 15 mínútur undir loki.

Bætið loksins vatnakastaníum og minimaís og látið sjóða áfram í 5 mínútur.

Skutlið Thai basil og helmingnum af salthnetunum út á pönnuna.

Berið fram yfir brúnum grjónum og toppið með salthnetum.